Visit Reykhólahreppur
Byrjaðu ferðalagið hjá okkur

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum

Haustið 2010 hófst samstarf Félags áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar, Reykhólahrepps og æðarræktarfélagsins Æðarvéa um að sameina Hlunnindasýninguna á Reykhólum og Bátasafn Breiðafjarðar. Sumarið 2011 var síðan opnuð ný sýning á grunni gömlu sýninganna og fékk hún heitið Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum.

            Sýningin er gluggi að skemmtilegum heimi fugla, báta og náttúrunytja Breiðafjarðar. Meðal annars fá gestir að kynnast æðarfuglinum á sérstakan hátt og fræðast um gömlu súðbyrðingana með breiðfirska laginu.

            Á þessari lifandi sýningu er hægt að sjá stuttar og lengri heimildamyndir um lífið í Breiðafjarðareyjum, sem teknar voru um miðbik síðustu aldar.

            Í sama húsi er upplýsingamiðstöð ferðamannsins.

Sýningin er opin yfir sumartímann, frá 1. júní til lok ágúst.

 

Lendingin Dröngum, Séra Sigurbjörn fluttur í Sth, Flutningaskip Ólafs á Dröngum, Ólafseyjarbátar Sigurfari t.h. og Blíðfari t.v. BBG og Magnús á I-Leiti

 

Í bátahluta sýningarinnar er margt að sjá, nokkrir bátar eru fastagestir eins báturinn Kópur.

Kópur er upp á vegg en Staðarskektan Björg á gólfinu

 

 

Báturinn er smíðaður í Hvallátrum um 1950 af Aðalsteini Aðasteinssyni fyrir Sigurbrand Jónsson á Grænhól á Barðaströnd og sem síðar var vinnumaður í Skáleyjum.

Tilraunastöðin á Reykhólum keypti síðan bátinn af Sigurbrandi árið 1952. Báturinn var notaður bæði af Tilraunastöðinni og Reykhólabændum til selaveiða og dúnleita.

Í hlunnindahluta sýningarinnar má sjá Kóp á gamalli ljósmynd, líklega frá miðbiki sjöunda áratugar liðinnar aldar. Þar eru hálfbræðurnir Sigurgeir Tómasson og Þorsteinn Þórarinsson á leið í land úr selveiðiferð með Dísu (sem er einnig á sýningunni) í togi en um borð í henni er pilturinn Hugo Rasmus.

Kópur kemur árið 2010 til Félags áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar og settur upp árið 2011 til sýningar

 

 

 

Staðarskektan sem ber nafnið Björg er einnig fastagestur og einn af okkar merkustu bátum.

Björg mun vera smíðuð í Hvallátrum veturinn 1916-17 af þeim feðgum Ólafi Bergsveinssyni og Gísla Ólafssyni. Þá var Gísli 17 ára og var skektan smíðuð gagngert fyrir hann. Hún mun bera nafn ömmu Ólafs, Bjargar Eyjólfsdóttur í Sviðnum (1815-1899).

Sumarið eftir fór Gísli á skektunni upp að Stað á Reykjanesi og gerðist vinnumaður og síðar ráðsmaður hjá Jóni Þorvaldssyni prófasti. Þau urðu afdrif Gísla að hann fórst á skektunni síðla hausts árið 1925. Hann lagðiaf stað með póst yfir á Grónes handan Þorskafjarðar en bátinn rak mannlausan upp að lendingunni á Stað nóttina eftir eða mjög skömmu síðar.

Staðarskektan var alla tíð á Stað og var að líkindum í notkun fram undir 1970. Síðan lá hún þar á hvofi þangað til sumarið 2005 þegar Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar bjargaði henni og árið 2007 var smíðað eftir henni báturinn Vinfastur sem einnig er á sýningunni.

Báturinn er eign Félags áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar, var gefin félaginu árið 2011

 

 

Fleiri bátar eru á sýningunni eins og skektan Dísa, Farsæll og Friðþjófur. Farsæll er að vísu á biðlista við að vera gerður upp en er geymdur fyrir utan sýninguna. Einnig koma nokkrir bátar í heimsókn til okkar á sumrinn, eins og Björg, Gola, Ólafur, Björk og fleiri bátar.

Móttökustjóri Eyjasiglingar síðastliðin 3 ár, mun hún mæta til vinnu í ár. verður spennandi að fylgjast með
 

Hlunnindahlutinn er tileinkaður æðarfuglingum og fleiri hlunnindum Breiðafjarðar. Æðarfuglinn hefur ávallt verið okkur hugkær og á sýningunni gefst gestum tæifæri á að kynnast honum á einstakan hátt, hægt er að fá leiðsögn um sýninguna og sögurnar sem fylgja henni eru ávallt áhugaverðar, eins og samband milli hesta og æðarkollu, kollan sem vissi vel að best væri að vera næst umferðinni, kollann sem ákvað vera vinna við móttöku hjá Eyjasiglingu hjá bryggjunni á Stað. já nóg er af sögunum og gestir geta einnig fengið að sjá mjög merkan dún sem er ekki eins og venjulegur dúnn á litinn.

 

Við hlökkum til að sjá ykkur

Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 151
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 133694
Samtals gestir: 25695
Tölur uppfærðar: 19.11.2018 14:09:46